FRÉTTABRÉF FLISS – MARS 2015
Námskeið FLISS
Námskeið haustannar gengu mjög vel og voru þau vel sótt enda mjög áhugaverð og spennandi. Á vorönn hefur þegar eitt námskeið verið haldið. Kennari var Þórey Sigþórsdóttir leikkona og raddþjálfi. Gaman hefði verið að sjá fleiri félagsmenn en námskeiðið var mjög áhugavert og þátttakendur fóru heim með áhugaverðar hugmyndir sem hægt er að nýta í skólastofunni. Í apríl stefnum við á að hafa námskeið í leikhússpuna en það verður auglýst nánar þegar nær dregur. Einnig minnum við á hin ýmsu námskeið í LHÍ sem mörg eru mjög áhugaverð og geta nýst okkur kennurum vel í skólastofunni.
Heimsíða FLISS
Nú er verið að uppfæra heimsíðu félagsins. Til stendur að opna hana formlega í lok apríl en við fengum Helgu Óskarsdóttur til liðs við okkur við endurhönnun síðunnar auk þess sem Helga Gerður Magnúsdóttir endurhannaði lógóið okkar. Síðan verður tvíþætt, annarsvegar verða upplýsingar sem eru öllum opin og hins vegar lokað svæði fyrir félagsmenn þar sem þeir geta fundið námsefni og aðrar upplýsingar sem nýtast þeim. Við erum nú í óða önn að taka saman efni á nýju síðuna .
Samningamál
Þetta skólaár hefur litast mikið af kjarasamningum kennara þar sem list og verkgreinakennarar bæði á grunn og framhaldsskólastigi hafa reynt að láta í sér heyra varðandi stöðu sína. Grunnskólakennarar samþykktu sína samninga nú á dögunum en framhaldsskólakennarar munu nú væntanlega setjast aftur að samningaborðinu þar sem þeir felldu vinnumatið í sínum samningum. Stjórnarmeðlimir hafa setið marga fundi í vetur vegna samningamála.
Afmælisár FLISS
Í haust fagnar FLISS 10 ára afmæli og því ber að fagna. Nú þegar eru komnar fram hugmyndir um hvernig við ættum að minnast þessara tímamóta en endilega ef þið liggið á hugmyndum þá sendið okkur línu. Allar hugmyndir eru vel þegnar.
Félagsgjöld FLISS 2014 – 2015
Í desember sl. voru sendir út gíróseðlar fyrir félagsgjöldum. Gjaldið er óbreytt frá fyrra ári og biðjum við ykkur endilega að kíkja í heimabankann og greiða seðilinn sem fyrst. Þó að öll vinna stjórnar og nefnda sé í sjálfboðavinnu þá kostar sitt að reka félagið, halda námskeið til að efla endurmenntun félagsmanna o.s.frv. Við þökkum þeim félagsmönnum sem nú þegar hafa greitt félagsgjaldið.
Könnun FLISS
Á næstu dögum munum við senda út könnun til félagsmanna. Við vonum að þið bregðist vel við en okkur langar m.a. til að kanna hversu margir af félagsmönnum eru að kenna leiklist eða nota leiklist í sinni kennslu, auk þess að kanna hug ykkar til félagsins. Því meira sem við vitum um ykkar þarfir því öflugra verður starfið.
Facebooksíða FLISS
Við erum með facebook-hóp þar sem margir hafa gerst meðlimir en það eflir þennan vettvang að hafa sem flesta í hópnum. Endilega skráið ykkur. Slóðin er https://www.facebook.com/groups/127734169905/
Hlýjar kveðjur,
f.h. stjórnar,
Jóna Guðrún Jónsdóttir,
formaður FLISS